Ég heiti Sigga Dögg og ég er kynfræðingur. 

Betra kynlíf er hugarfóstur mitt og afrakstur alls  starfs míns. Ég vil að þú getir vitað allt sem ég veit um kynlíf.

Undanfarin ár hefur mitt helsta starf verið kynfræðsla í grunn- og framhaldsskólum. Þar fræði ég nemendur, kennara og foreldra. Umræðan í samfélaginu hefur verið ansi hávær um aukna kynfræðslu fyrir unglinga, og tek ég undir það, en það sem ég hef líka tekið eftir er að foreldrar og fullorðið fólk vantar heilmikla kynfræðslu!

 

Þannig að ef við eigum að geta breytt um bætt samtalið um kynlíf – þá verðum við að byrja á okkur sjálfum!

Og því erum við komin hingað. 

Ég er með stútfullann koll af kynlífstengdum fróðleik sem mér ber skylda að deila. Ekki nóg með að ég viti fullt og allskonar, heldur er ég líka tengd inn í stórt alþjóðlegt tengslanet sérfræðinga sem býr yfir margskonar einstakri þekkingu. Það er því hér, í þessum fræðsluvef „Betra kynlífs“ þar sem ég leiði saman þekkingu úr ólíkum áttum, og öllum heimshornum, til að draga kynlíf úr skugganum og inn í sólarljósið.

Nú má fræðast um kynlíf, tala um það, skoða það, skilja það.

Og þar með, skilja okkur sjálf, og aðra, betur. 

Það er verkefnið okkar hér. Að leyfa okkur að fræðast, læra og losna við kynlífstengda skömm.

Ég held að fæstir hafi komist til fullorðinsára án þess að fá einhverja kynlífstengd skömm á sig og ég tel að eitt stærsta verkefnið okkar sé að losna undan þessari skömm. Og það gerum við með aukinni þekkingu.

En aðeins meira um mig. 

Ég lærði sálfræði við Háskóla Íslands (BA) og kynfræði (sexology) við Curtin háskóla í Vestur Ástralíu (MA). Þú kannast kannski við mig úr fjölmiðlum en ég hef búið til þrjár sjónvarpsþáttaseríur fyrir Stöð 2 og verið mjög virk á öllum rásum og stöðvum í allskonar viðtölum. En ég er einnig rithöfundur og hef skrifað og gefið út þó nokkrar bækur. Og svo er ég með uppistand! En það er pínu leyndó. Samt ekki, bara langt síðan ég hef haft eitthvað slíkt. Ég hef einnig flutt erindi á faglegum ráðstefnum víða um heim og setið í stjórn Norrænu kynfræðisamtakanna (NACS) frá árinu 2014.