Fæðingarsögur vekja gjarnan áhuga fólks, ok kannski bara foreldra, og þá kannski sérstaklega mæðra, en hvað um það, fæðingarsögur eru jafn ólíkar og þær eru margar. Engin ein er betri eða réttari en önnur, allar reynslur eiga rétt á sér.
Íris Stefanía Skúladóttir eignaðist sitt þriðja barn nýlega og lagði upp með unaðslega fæðingu (orgasmic birth) þar sem má nudda snípinn til verkjastillingar (já með titrara og/eða fingrum) og örva geirvörturnar upp á að koma fæðingunni af stað. (psst – það að örva geirvörturnar eykur flæði oxytósins um líkamann en það er eitt af hormónunum sem einmitt kemur fæðingunni af stað!) Og fyrr á öldum var snípurinn einmitt nuddaður til verkjastillingar.
Ég hafði einstaklega gaman af nálgun Írisar Stefaníu að fæðingunni þó meðgangan og ferlið hafi ekki gengið snuðrulaust fyrir sig þá samt segir hún frá því af svo mikilli fegurð og væntumþykju og með húmor!
Eins og þetta með fæðingatöskuna! Ég bilast!
En þessi umræða um unaðslegar fæðingar er dýrmæt og má fá smá pláss. Þetta er ekki nýtt fyrirbæri heldur frekar kannski bara smá gleymt. En því er um að gera að rifja það upp og sjá hvort eitthvað gagnist þér í þínu meðgöngu og fæðingarferli. Þetta er líka í raun hugsun um fæðingarferlið frekar en bara ferlið sjálft. Að reyna að leyfa sér að njóta fæðingarinnar, hvernig svo sem hún er, og þó þú náir ekki að njóta allan tímann, að geta átt augnablik í þakklæti.
En það er ekkert allt ónýtt ef það heppnast ekki – en það má skoða þetta og pæla í því.