Talandi um að fá að vera fluga á vegg í tveggja kvenna sóðarbrókartali!

„Af hverju er ég með skömm yfir rassinum mínum og unaði þar? Hvaðan kemur það?

Er ég of góð fyrir eigin rassa-unað?“

Helga Snjólfsdóttir er kona margra hæfileika (verkfræðingur, jóga kennari, markþjálfari, fyrirlesari, ráðgjafi ofl.) en hún hefur undanfarin ár haldið sex vikna námskeið fyrir konur til að vekja kynveruna í sér. Þar fer hún með konurnar í gegnum ferðalag frá fyrstu minningunni af sér sem kynveru og hvar þær eru í dag gagnvart líkama sínum, píkunni, sjálfsfróun, kynlífi og unaði.

Við Helga förum alveg á flug í að ræða sjálfróunartækni, unað, misvísandi skilaboð um kynlíf, kynlífsskömm, munnmakaskiptidíl, megrunarmenningu, drusluskömm, núvitund, að skilja og þykja vænt um eigin líkama, og eigin kynlíf!

Og að forgangsraða sjálfri sér – tengirðu?!

Þetta er svona eitt af þessum viðtölum þar sem gott er að stoppa reglulega og melta það sem verið er að tala um. Mig grunar að margir tengi við það sem Helga talar um og er ég þakklát að konur þessa lands geti farið á svona námskeið.

Það að létta af skömm og skilja sjálfa sig betur er ein dýrmætasta gjöfin sem við getum gefum okkur.

Það nefnilega má vera kynvera!

Það er ótrúlegt hversu mikið hver og einn þarf að aflæra í tengslum við líkamsímynd, kynlíf og unað. En til þess að geta liðið betur í eigin skinni þá þarf að horfa í þessi viðhorf, þessar hugmyndir sem aðrir settu á þig, og endurlæra. Það er von mín að með því að hlusta á þetta spjall, þá léttist á einhverjum óþarfa þunga í líkama og sál, sem er tilkominn vegna skömm, ranghugmynda eða jafnvel þekkingarleysi á því hvað má í tengslum við kynlíf og eigin líkama. Þetta snýst allt um eigin líkama og sál, eigið ferðalag til að sættast við sig og leyfa sér.

Ég vona að þú fáir smá gott í hjartað við áhorfið og/eða hlustunina og lærir og aflærir.

Það munu koma inn fleiri myndbönd af spjalli okkar Helgu, svo fylgstu með 🙂