Kynlífsleysi er í raun ástand sem ég hugsa að flest fólk muni ganga í gegnum á lífsleiðinni, óháð sambandsstöðu!

Og af hverju er það?

Jú bæði því við metum okkar kynlíf útfrá kynlífstíðni annarra, ath – ekki gæðum heldur tíðni, og því við leggjum allskonar merkingu í kynlífið okkar og hvað það þýðir fyrir sambandið okkar. Og þar er enginn rétt tala! Ótrúlegt en satt.

Og við þurfum að aðgreina á milli einstaklinga og para.

Einstaklingur í kynlífsleysi er það í raun af eigin vali því alltaf má stunda sjálfsfróun. Sama gildir um einstaklinga sem eru í sambandi. Það má alltaf sinna kynlífi með sjálfum sér. Þannig að hvað meinum við þegar við segjum kynlífsleysi?

Við eigum aldrei kröfu á kynlíf með öðrum. Þannig að þegar við segjum kynlífsleysi þá verðum við líka að skoða okkur sjálf, finnst þér þú eiga rétt á kynlífi með annarri manneskju?

Það er viðhorf sem þarf að vinna með því kynlíf er ekki þörf heldur löngun. Alveg sama hvort þú sért í sambandi eða ekki. Þannig að hér má staldra við og skoða, af hverju stunda ég kynlíf og hvað þýðir kynlíf fyrir mér?

En það sem er „hættulegt“ eða kannski frekar vandasamt við algert kynlífsleysi í sambandi (á milli pars) er að þá slokknar oft á nánd og jafnvel allri snertingu og þar með tengingunni á milli parsins. En hér þarf að klippa á milli tengslin á milli innilegrar snertingar og kynlífs, þetta snýst um væntingarstjórnun. Klíp í bossa þarf ekki að þýða upphafið á kynlífi. Það verður oft til svo mikil spenna í kynlífsleysi og/eða kynlífslöngungar ósamræmi. Því er mikilvægt að pör geti hannað nánd án væntingar um að það leiði til kynlífs. Þannig er hægt að vera enn mjög náin þó kynlífið sé jafnvel lítið eða ekkert á því tímabili. Kynlífstíðni sveiflast oft eftir utanaðkomandi streituvöldum í lífinu sem og innri líðan og stemmingunni í sambandinu og það er alveg eðlilegt að stundum sé meira kynlíf og stundum minna.

Þetta er allt spurning um hvernig hlutirnir eru orðaðir og hvernig þeir eru ræddir í stað þess að segja bara „við gerum það aldrei!“

Ég mæli með að kíkja á myndbandið um samtalið. Það ætti að veita þér ágæta innsýn í hvernig hægt er að fara inn í samtal um kynlífsleysi við makann.