Flestar konur sem ég þekki eiga kynlífstæki. Ég var reyndar í boði einu sinni þar sem að stúlka á þrítugsaldri átti ekki græju og við allar supum hveljur. Meira að segja þær sem töluðu lítið sem ekkert um kynlífið sitt voru í sjokki. Ekki til að dæma, ekkert teprulegt, bara óvenjulegt. Þegar ég var sautján ára þá fórum við hópferð í kynlífstækjabúðir og keyptum allskonar góss. Reyndar var það úr hörðu plasti og allt í væmnum litum og eins og einhver dýr (fiðrildi, höfrungur, býfluga!). Dótið í dag er miklu skemmtilegra, smartara og betra. Sem betur fer.

Það er mikið gleðiefni að kynlífstæki þyki sjálfsögð eign því þau eru eðlilegur hluti af kynlífi fólks. Óháð kyni, aldri, hneigð og sambandsstöðu.

Stundum þarf að prófa nokkur tæki til að finna það sem akkúrat hentar manni best en það getur líka verið misjafnt eftir tímabilum og fantasíum.

Um að gera að leyfa sér. Leyfa sér að njóta og kanna hversu mikið er hægt að keyra upp unaðinn með því að leyfa sér ólíkar græjur!