Oft þegar eitthvað „nýtt“ fer á flug þá verður það á allra vörum og fólk skiptist gjarnan í fylkingar. Þetta er eitt af þeim málefnum sem að fólk hefur oft sterka skoðun á. Það gæti aldrei verið í opnu sambandi, eða þá að opið samband og sveigjanleiki sé eina rétta leiðin fyrir fullorðið fólk að ætla að vera saman í lengri tíma.
En það þarf að skoða eitt – hvað meinum við þegar við tölum um opin sambönd?
Það sem einkennir opin sambönd eru heiðarleg samskipti þar sem fólk setur sér reglur um hvað má og hvað ekki. Þetta eru sambönd eins og hver önnur, með sínum áskorunum og takmörkunum, en þetta er sambandsform sem hentar sumum, og öðrum ekki. Og það má.
Eitt sem er gott að hafa í huga að það að breyta sambandsforminu sínu, hvort sem það sé opið í lokað eða lokað í opið, er eitt og sér aldrei að fara leysa ágreining eða vandamál sé samtalið ekki tekið um það sem raunverulega er vandamálið.
Svo má líka prófa allskonar. Sambandsformið er ekki greypt í stein nema að því leyti að fólkið í sambandinu þarf að vera sammála um leiðina sem á að fara, hvort sem það sé opið eða lokað samband.
En það er alltaf áhugavert að taka spjallið og velta þessu fyrir sér.
Hvað óttast ég við opið samband? Hvað fyndist mér mögulega spennandi við það? Eru kostir? En ókostir?
Get ég rætt þetta við makann minn eða vekur þetta óöryggi? Það er fínt að bera kennsl á þessar tilfinningar og einmitt – ræða þær saman!
Hefur þú velt opnu sambandi fyrir þér?