Listakonan Aldís Gló Gunnarsdóttir fann innblástur í klámi og reyndi að fanga, eða búa til, einhverja fegurð frá sjónarhorni konunnar sem hún segir að sé nær ósýnilegt í þessum heimi.
Sjónarhorn konunnar í klámi er viðfangsefni margar feminískra klámframleiðanda, s.s. Eriku Lust og Tristan Taormino, en slík myndbönd þarf að greiða fyrir. Aldís sökkti sér niður í það sem oft er kallað „mainstream“ klám – það sem er ókeypis og mjög aðgengilegt. Henni þótti það oft groddalegt og sjaldan hannað fyrir upplifun og nautn konunnar. Hún reyndi að fanga augnablik úr slíku klámi til að skapa fegurð, nánd, innileika, tengingu og jafnvel hráleika kynlífs – og þar með fjarlægja það frá kláminu sem var innblásturinn.
Við skoðum öll verkin hennar Aldísar, ræðum um hvaðan innblásturinn komi, hvernig henni fannst að liggja yfir klámi og rýna í það og hvað hún myndi vilja sjá breytast í klámi. Sýningin ber nafnið TABÚ og er bönnuð innan sextán ára.
Svo er gott að minnast á það að auðvitað eru verkin til sölu! Bara svona ef þig vantar eitthvað til að skreyta heimilið…