Vertu sexí! Vertu í sexí nærfötum! Vertu hárlaus! Á réttum stöðum sko! Ekki vera á túr! Þrífðu þig! Ilmaðu vel! Vertu máluð! Vertu fín! Vertu kvenleg! Ekki vera of agressív! Daðraðu en ekki of mikið! Taktu við drykk en ekki splæsa á aðra! Ekki eiga frumkvæði! Horfðu bara smá! Ekki of mikið! Ekki vera drusla! Ekki hafa prófað neitt en vilja allt! Styndu hátt!

Þetta kynlífshandrit er svo glatað. Það er úrelt og það þjónar hvorki þér né bólfélaganum.

Ef við reynum að synda á móti, ætlum að láta sem svo að þessar hugmyndir bíti ekki á okkur, hvernig synda þær samt í kringum okkur og móta samviskubit og skömm?

Nei – nú berum við kennsl á þessar kynjuðu hugmyndir svo við getum breytt og bætt og hannað okkar eigin handrit!

Það er mjög afhjúpandi að leyfa sér að skoða hvaða hugmyndir manns, nú eða konu, koma um kynlíf. Af hverju höldum við að hlutirnir eigi að vera svona eða hinsegin? Af hverju getum við ekki mætt í bólið án hugmynda annarra um okkur og bara mætt með okkur sjálf? Lært á okkur sjálf og leyft öðrum að læra á okkur?

Neibbs – við erum öll beygð undir helúrelt handrit sem enginn nennir lengur.

Nú segi ég stopp.

Gríptu þessar hugsanir, skoðaðu þær, hentu útí hafsauga og skrifaðu þitt eigið handrit. Sumt af staðlaða handritinu mun kannski rata þangað inn og það er allt í lagi en ég vil að þú vitir af hverju þú ert eins og þú ert og að það valdi þér vellíðan en ekki vanlíðan.

Nú endurlærum við og endurhönnum!