Ég ætla segja það strax.

ÞAÐ MUNU ÖLL TYPPI GLÍMA VIÐ STINNINGARVANDA Á LÍFSLEIÐINNI.

Ah, gott að þetta sé frá.

Nú getum við farið að tala saman af alvöru!

Og fyrst við erum að tala saman, þá er þetta kannski frekar ris-truflun en beinn vandi, í flestum tilvikum er það ekki þannig að það komi aldrei stinning í liminn, það er meira aðstæðutengt, þú veist, þegar þú ert að fara að… tengirðu?

En svona í alvörunni, öll typpi lenda í einhvers konar risvanda á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni. Yfirleitt er það ekkert til að hafa áhyggjur af og það leysist af sjálfum sér (svona þannig, ég fer betur í það í myndbandinu). Þetta er því oftast nær tímabundin truflun frekar en langvarandi vandi.

Fyrsta spurningin sem þú mátt velta fyrir þér ef þú glímir við ris-truflun er hvort hún sé tímabundin, fékkstu áður góða stinningu en svo allt í einu hættirðu að fá stinningu?

Önnur spurning er, færðu aldrei stinningu lengur ? Hvorki við morgunris né við sjálfsfróun?

Ef svarið er nei við þessum tveimur spurningum – þá ferðu beint til læknis. Þetta er líklegt til að vera líkamlegs eðlis. Hvort sem það sé vegna einhverra lyfja sem þú tekur eða aðrar lífsstílstengdar ástæður, heimilislæknir er næsta manneskjan sem þú vilt heyra í.

Ef svarið er hinsvegar já – þú færð stundum stinningu þá erum við líklega að horfa í eitthvað andlegt og þá kannski kvíðatengt. Þá spyr ég – gerist þetta eingöngu með bólfélaga?

Ef svarið við því er líka já – vá þá er þetta myndband fyrir þig!

Farðu í gegnum spurningarnar í þessu myndbandi, endurskoðaðu gildin þín, væntingar og hugmyndir um ris og ef þú ert enn óviss, þá er um að gera að fara til kynlífsráðgjafa eða sálfræðings.

Og kannski eitt – í sambandi þá er risvandi oft paravandi en yfirleitt mjög yfirstíganlegur vandi. Bara svo það sé sagt.