Sjálfsfróun maka er furðu algengt umræðuefni þegar ég skemmti í fullorðinshópum. Mögulega af því ég spyr beint um það, fólk er kannski ekki oft að ræða þetta því sjálfsfróun virðist vera viðkvæmt málefni! Það sem mér þykir svo áhugavert er að fólk talar síður um eigin sjálfsfróun og frekar um makann og hefur gjarnan skoðanir á fróuninni. Sumt fólk upplifir sjálfsfróun maka sem svik og jafnvel höfnun.
Af hverju stundar maki ekki kynlíf með mér?
Er kynlífið okkar ekki nóg? (Lesist: Er ég ekki nóg?)
Er betra að fróa sér en að stunda kynlíf með mér? (Lesist: er eitthvað að okkar kynlífi? Er ég ekki aðlaðandi? Osfrv.)
Er eðlilegt að fróa sér í sambandi? (Stutta svarið – já)
Þannig að ég legg til að við skoðum aðeins sjálfsfróun, hvað hún er og hvað ekki, hvaða þýðingu hún hefur og hvort það eigi að leggja merkingu í hana í sambandinu.
Og já – eins og alltaf, þetta er málefni sem ég myndi mæla með að ræða í þínu sambandi.
Ef þú ert ekki í sambandi þá er um að gera að hugsa tilbaka til fyrri sambanda og skoða hvernig þetta var í því sambandi og meta hvernig þetta verður þá rætt í þínum samböndum í framtíðinni!