„Árið 1941 varð ég vitni að árás karlmanna og pilta um hábjartan dag á fallega, unga konu sem trúlofuð var breskum hermanni. Þeir kölluðu hana „hóru“ og „mellu“, tuskuðu hana til, hrintu henni á milli sín og höfðu í hótunum um að raka af henni hárið svo allir sæju að hún væri „mella“ og „svikari“.“
Herdís Helgadóttir: Úr fjötrum

Ástandið?

Kanamella?

Hórdómur?

Drusluskömm…

„Íslenskar stúlkur og konur urðu fyrir aðkasti vegna samskipta sinna við hermenn á tímum hernámsins á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni. Þær máttu þola illt umtal, útskúfun eða jafnvel árásir fyrir það eitt að sjást í fylgd með erlendum hermönnum. Árum og áratugum síðar eimir enn eftir af þeim fordómum sem þessar konur mættu en fæstir þekkja raunverulega sögu þeirra stúlkna sem um ræðir, söguna af ríkisafskiptum af ástarlífi kvenna og stúlkna, og því sem þær máttu þola af hálfu yfirvalda.“

Nú loksins er myndin Stúlkurnar af Kleppjárnsreykjum eftir fréttakonuna Ölmu Ómarsdóttir aðgengileg almenningi!

Myndin er frá árinu 2015 og segir frá stærstu persónunjósnum Íslandssögunnar og grófu mannréttindarbrotum á kornungum stúlkum sem unnu sér ekkert til saka annað en að hafa mögulega horft í átt til hermanns eða að hermaður hafi horft á hana.

Hér förum við í tímaflakk aftur til seinni heimstyrjaldar, hernumið Íslands mætir okkur og tíðarandi er annar en við eigum að venjast en þó eimir enn af ákveðnum ótta.

Svo horfðu með opið hjarta og ræddu þetta mál inni á kaffistofu vinnustaðarins því þessi saga má alls ekki gleymast.

Þá er gott að horfa á myndina fyrst og svo viðtalið við Ölmu.

Hér má lesa tillöguna til þingsályktunar frá 2015 sem þverpólitískur vilji virtist vera fyrir rannsókn á þessu máli en allt kom fyrir ekki! En samkvæmt nýjustu fréttum (2023) er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að leggja fram frumvarp um rannsókn og sanngirnisbætur.