Ú hér förum við inn á umdeilt málefni!
Fantasíur eru ekki pólitískt réttar, þær geta verið sóðalegar og óviðeigandi og verið með fólki sem við höfum kannski engan raunverulegan áhuga á en það fólk getur skotist upp í kollinn í kynferðislegu samhengi og þá fer allt af stað!
Fólk segir oft við mig, hvað ef ég hef engar fantasíur?!
Þá finnst mér gott að skoða aðeins hvað við eigum við með fantasíum.
Sumar fantasíur snúast í kringum búninga eða kynferðislega tilraunastarfsemi sem okkur langar til að prófa, oft með bólfélaga. Þá fara fram samningaviðræður um hvað og hvernig.
En svo eru það prívat fantasíurnar…
Margar fantasíur eiga einungis heima í huganum okkar, í sínum eigin heimi þar sem allt er hægt og allt má, og okkur langar alls ekki að prófa þær í raunveruleikanum. Það getur verið erfitt að segja þér upphátt, jafnvel játa fyrir sjálfu sér, því þær geta verið svo á skjön við hvernig kynlíf við fýlum og/eða yfir þeim hvílir skömm.
Þetta er alveg eðlilegt og algengt. Skömmin er óþarfi (sérstaklega þegar þú skilur betur hvernig fantasíur virka) en skiljanlegar.
Gefðu þér tíma til að staldra við og skoða fantasíur og ræða við maka og bólfélaga.
Þetta er ein dýrmætasta berskjöldun og nándar-æfing sambanda, að afhjúpa fantasíurnar sínar og leyfa sér að leika sér með þær, þó ekki sé nema bara í eigin huga.